Með lífið að láni

Vildi að ég gæti skrifað e-ð hér inn að viti. En það er allt á hvolfi og hringsnýst svo í þokkabót.

Minn ektakarl greindist enn á ný með æxli og enn, sem betur fer, heldur það sig við sömu slóðir þannig að það er skurðtækt og verður ráðist á það strax eftir páska.  Nú eru bara 6 mánuðir síðan hann var skorinn síðast en þá var hann fljótur að jafna sig og við vorum að vonast eftir að það yrði nú lengra í þetta en það er....en við erum að biðja um mikið.

 

Ef ég að eins vissi hvernig allt færi

Ef ég aðeins gæti lagað allt

Yrði þá allt betra?

Ef ég aðens væri viss um alla hluti

Og allt væri í lagi

Er þá allt betra?

 

Við tökum á þessu eins og við höfum gert hingað til, ekkert væl og engin uppgjöf!

 

Sideways..þar til  næst...hvenær sem það nú verður


Ósýnilegur sársauki

Hjartað öskrar út í andartakið
út í þögnina
og falin tár leka ekki fram.
Hvað það tekur á að vera til
en engin mun fá að vita  það
Ég hefði haldið fastar um þig
fastar og haldið í þig
von


Fullt tungl af hr.Krabba

Tikk takk...heyrist oft innra með mér  og ég upplifi það að tíminn sé að renna út.  Hugsa ekkert um hvaða tími en þessi biðstofufílingur um að við séum að bíða eftir einhverju sem er svo ekkert, er frekar leiðinlegur fylgifiskur minn. Að hugsa ekkert of mikið er líka hægt en við lifum í þessu öll og einhver verður að vera upplýstur og virka eins og svampur.  Kann kannski bara ekki að gefast upp enda veit ég ekkert fyrir hverjum ég ætti að gefast upp!

Æxlið úr frekar snotru höfði mín ektakarls var fjarlægt, skorinn á miðvikudegi og kominn heim á föstudegi, ekkert verið að hangsa með svona sjúklinga er eru alltaf að koma aftur og aftur.  Karlinn fór svo að þykjast vinna á mánudegi eins og ekkert væri og hefur aldrei litið betur úr þó ég segi sjálf frá.
 

Þetta æxli var sömugerða og hin, 3.gráðu en í þetta skiptið óx það inn í holinu eftir þau fyrr, sveif þar bara eins og fullt tungl og var með smáörvefi  inn í heilahimnuna ...og það gerði doksan vissan un að þetta væri góðkynja. Ekki hafði hann rétt fyrir sér en nú var ekki í boði að fara í lyfjameðferð og ég ætla ekki einu sinni að hugsa út í það hvort það er gott eða vont.    Minn ektakarl var að minnsta kosti ánægður að þurfa ekki að dæla þeim í sig. Hann hefur nóg að gera og velur eiginlega hverju hann gleymir og hverju hann man...svo lífið er dásamlegt segir hann.   

Lífið er jú gott þegar allir eru frískir og það er það eina sem mig vantar inn í mitt líf, er að allir mínir  séu frískir og  sáttir.

Sleeping..þar til næst

 

 


Bévítans krabbinn..

Ég hef staðið mig vel í að endurskoða marga hluti og einbeitt mér mikið að því að leggja mig fram við það að skilja stundum verk eftir ókláruð.  Held mér hafi tekist vel til.  Hlutverk mín eru mörg en það að leika sér með strákunum, segja þeim sögur, fá hláturskast með heimasætunni eru skemmtilegust en það er líka gott að  vera leiðinleg og drusluleg af og til og ég hef staðið mig vel þar líka!

Sex mánuðir frá síðustu myndatöku af heila míns ektakarls og það er í fyrsta skiptið í sjö ár sem svo langur tími hefur liðið á milli.  Endurtekið efni ...kvíði og áhyggjuhnúturinn fer af stað ómeðvitað að mér finnst,  en samt er eins og þessar tilfinningar liggi í dvala og svo fer allt af stað alveg sama hvað maður telur sig vera búin að læra af þessu brölti okkar hjónakorna til lækna og annarra fagmanna.

 Tuttugu og þrír mánuðir síðan ektakarlinn minn fór í aðgerð nr. þrjú og missti við það allan mátt vinstra megin í líkamanum og nú er komið að aðgerð nr. fjögur.  Í þetta skiptið er það á sama stað og æxli nr. tvö og það vekur furðu að það hafi getað dafnað þar því engar heilbrigðar frumur eru þar eftir en þeir eru tilbúnir að skera og minn karl meðtók það strax.   Það er eins og við séum inn í sápukúlu...tökum á þessu m eð einhverri ró en sofum illa og viljum bara að þetta sé frá.  Karlinn samt að vinna og fær mikið út úr því þó vinnuframlagið sé í takt við líkamsástandið.  Við hin í fjölskyldunni fylgjumst að í vinnuna en nú erum við fjögur sem erum á sama vinnustaðnum því litli karlinn var að hefja sína skólagöngu og er frekar montinn með það. 

Aðgerðin er núna í vikunni, sami staður , sami doktor og sama svítan að mér skilst.  Þetta verður langur dagur,  mikil ónot í mér varðandi þessa aðgerð en þetta er svo lúmsk og hraðvaxandi krabbamein að það er ekki eftir neinu að bíða enda aldrei hægt að venjast tilhugsuninni.

 

þar til næst....úff


Óreiða og þá þarf að taka til

Raunveruleikinn er harður og gefur ekkert eftir og þó ég hafi tekið tilveruna í sátt þá er hluti af mér sem verður aldrei sáttur við það hlutverk sem minn ektakarl hefur fengið í lífinu, hvaða líkama minn elsti afleggjari þarf að lifa í, hvaða fötlun heimasætan mín berst við , rokið í höfði elsta sonar og óreiðuna sem fíkillinn minn og synir hennar hafa búið við.  Saman erum við samt ein fjölskylda og reynum að styðja hvort annað.

„Amma ég er  með lausa tönn... amma ég er að vera fullorðin"  sagði yngsti ömmusonurinn við mig.  Tíminn líður hratt og þessi orð hans minntu mig á alla hina afleggjarana sem  höfðu  upplifað einmitt þessa spennu við að missa tönn.   Á orðið nokkuð gott safn tanna sem tannálfurinn hefur sett í skrínið mitt og alltaf er það sami 100 karlinn sem fer undir koddann, engin afsláttur hjá þeim álfi.

Mamma þeirra drengja hefur verið á landinu og það er sterk taug á milli þeirra   þó svo að sá yngri hefur eiginlega ekkert verið með henni og sá eldri grét sárt við hugsunina um að  hún þurfi að fara og var virkilega erfiður við hana, eins og hann vildi láta hana finna fyrir því að þau séu ekki saman í dag.  Hún kom heim og faðmaði mig og alla fjölskylduna og var eins og prinsessan á bauninni hjá öllu góða fólkinu á Kotinu. En hún fann til og og það voru mörg tárin sem féllu þegar hún svaf hér síðustu nóttina hjá mér og ömmusonurinn á milli okkar.  En hún fann að hún átti samastað þarna í Noregi og segir að hún þurfi þetta til að lifa af.

Mikið um fundahöld hjá mér þessa dagana og það var á einum slíkum sem ég fékk símtal þar sem ..sagt var að ömmusonur hefði fengið vildarbarnaferð að eigin vali.   Gleðin og tilhlökkun var einmitt það sem vantaði  og nú getum við látið okkur hlakka til!

Pinch ...þar til næst


Jesú karlinn

„Mamma" hvað vita strákarnir mínir um Jesú var spurning sem ég fékk frá dótlunni minni í Noregi.

Hmmm um Jesú karlinn var svarið mitt, jú þeir kunna sitt hvað var ég nú viss um, þeir fara með Vertu Guð faðir á næstum hverju kveldi og við förum reglulega í gönguferðir í garðinn stóra hér við hliðina á okkur þar sem miklar vangaveltur  eru um dauðann og hvað hann þýðir.

En ég ákvað samt að athuga kunnáttu drengjanna.   Sá yngsti svaraði spurningunni um Jesú svona...Jesú amma, hvar á hann heima?    Ömmusonur 7ára fékk þessa spurningu seinna um kvöldið og ég treysti nú á það að hann kynni meira um þennan mæta karl.   Jesú hann býr í Betlehem sem er í Grikklandi, nú svaraði ég , er hann þá lifandi?  Það hlýtur að vera svaraði snáðinn minn hann er alltaf í Jesú bróðir besti.   Minn maður með þetta á hreinu!

Ákvað samt að athuga þekkingu prinsins míns þar sem hann á nú að fá kristilega uppfræðslu í skólanum.  Hann vissi um Maríu mömmu hans en pabbann var hann ekki alveg viss um  Guð eða Jósep.  Betlehem kom fram hjá honum og að hann hefði verið krossfestur.  Fyrir hvað spurði ég í sakleysi mínu og fékk bara ...hvernig á ég að vita það?  Prófaði samt áfram, ok ef Jesú væri á lífi í dag hvað væri hann þá gamall, vááá mamma það nennir engin að reikna það út hann er löngu dauður var svarið.  Snarlega kom ég honum því fyrir sjónir að við miðuðum okkar tímatal frá því hvenær Jesú fæddist en það var árið 0 og því væri Jesú 2011 ef hann lifði í dag.   Nú dæsti sonurinn bara og sagði...afhverju hefur enginn kennt okkar það.    Aftur varð ég orðstopp...með þá vissu í kollinu hvar þetta væri í kennslubókinni hans.

Jesú karlinn sem gerir kraftaverk og þá er bara að biðja um það eins og dóttirin segir að ég geri ekki nóg af.....

Halo...kveðjur

 


Hjólför kvíðans

009_1052887.jpgÞó það sé eins og tíminn sé á einhverri hraðferð þá er það nú óþarfa tillitsleysi að láta strákana eldast líka.  Örverpið mitt tólf ára og það væri bara gott að hafa hann þar.  Þessi drengur er algjör gleðigjafi og dýrlingur en um leið orkubolti sem hugsar  best með bolta á milli fótanna.

Ég ætlaði ekki að ala upp neina unglinga í viðbót...veit ekki hvort mér hefur tekist nógu vel upp í fyrri skipti. Þó ég sé ótrúlega stolt af börnunum mínum, það mega þau  eiga , þau eru þorin, þau gera það sem hugurinn segir þeim og þegar þau standa sig vel þá gera þau það vel! Reyndar líka þegar þau standi sig illa, þá standa þau sig frekar mjög svo illa.

Kletturinn ég er að molna, er búin að vera föst í hjólfari kvíða, sorgar og uppgjafar nú í nokkra daga.  Má eiginlega ekkert hagga bátnum mér en það er svo margt sem er ekki í lagi að þetta ætti nú að fara að venjast. En þessu er aldrei hægt að venjast, sorgin er þarna á bakvið allt og kvíðinn frænka hennar.

Ákvað að þetta gæti ég ekki boðið sjálfri mér upp á og fór í mitt joga og ákvað um leið að faðma karlinn minn oft og lengi en hann er e-ð svo pirraður að geta ekki tekið utan um mig með báðum höndum....en ein hönd er betra en engin hendi.   Svo er alveg vel hægt að una sér við það að ömmusynirnir sækja í það að fá að vera í ömmuplássi svo ég fæ nóg af knúsi þessa dagana.

Futsal fótbolti átti hug okkar í dag þar sem  prinsinn var að keppa á Íslandsmóti og bróðir hans í úrtakshóp í Futsal landsliðinu.  Minn ektakarl fær að vera þar til aðstoðar og þó hann gangi alveg fram af sér í þreytu þá er það ánægður karl sem fer að sofa.  Ömmustrákar hjá pabba sínum en það er frábært fyrir alla að hann sé kominn til landsins, strákarnir með að hafa hann, ég yfir smá hvíld, prinsinn yfir að hafa mig eina og pabbann að geta loksins fundið ró í huga og verið með strákunum sínum.

 

-threyta_1054157.jpg

 

W00t..segjum...það

 

 

 


Furðuverk lífsins, dætur!

Tíminn líður og með ólíkindum að árið 2011 sé komið...árið 2005 þá var ég alveg komið með það að ég og minn ektakarl ættum ekki svo mörg ár eftir saman en hér erum við enn þó margt hafi breyst.   Hann er enn eins og fló á skinni...aldrei kyrr og alltaf að.  Fríið mitt hefur einnig þotið framhjá mér og enn hef ég ekki tekið skápinn, þennan sem alltaf er fullur af drasli en samt ekki drasli.  En ég hef verið að gera marga góða hluti og er tiltölulega sátt við árangurinn. Komin viss ró á heimilið en erfitt hefur það verið fyrir alla að venjast nýju hlutverkum og aðstæður kalla á að allir séu tiltölulega vel upplýstir um gang mála

Skrýtin hugsun að læðast að manni....fimm mánuðir síðan ég faðmaði yngstu dótturina og um 6-7 mánuðir þangað til ég geri það næst.  En ég ætti að þakka fyrir það yfirleitt að geta faðmað hana því ef einhver hefur lifað áhættu líferni þá er það þessi litla hetja. Einnig fjórir mánuðir síðan ég faðmaði fíkilinn minn og ég er alveg sátt við að faðma hana ekki á næstunni því henni líður vel og er að gera góða hluti með sjálfa sig.

Fíkillinn minn fær hér með nýtt nafn á sig í þessum skrifum mínum og verður hér með nefnd Jentan með tilvísan í Noregsdvöl hennar en þar byrjaði hún í skóla nú eftir áramótin sem er á vegum þessara samtaka þar sem hún er í meðferð ef meðferð er hægt að kalla.  Hún fer á samkomur og henni er innrætt að Jesú karlinn lækni allt, höfuðverk og alla innri vanliðan.  Hvað er að okkur hinum að biðja ekki þennan mæta karl um hjálp okkur tilhanda.

Henni líður vel, margt að sýsla þar sem hún er núna og varla að dagurinn nægi til að sinna því þannig að ég held að dagurinn sé e-ð styttri þarna í Norge en hér heima.  Hún vinnur í því að forðast niðurdrepandi hugsanir og fíknina sem sveimar nú þarna í kringum hana.  

Mismunur á hita úti við hjá þeim systrum er nú um 65 gráður, önnur í Afríkunni og hin í Noregi og ekki bara það að það sé hitamunur þá er lífið ansi ólíkt hjá þeim.  Heimasætan í Afríkunni held ég að sé með það markmið að smakka allan innlendan bjór á meðan systir hennar talar við  xxxx......önnur sefur kappklædd en hin brennur á ströndinni.

Hér með lofa ég þessum dætrum mínum að vera duglegri að skrifa hér og segja frá ....öllu saman


Leynistaður hugans

Hvað er leynistaður í ykkar huga.

Minn leynistaður   ...er á stað út á landi og hér áður fyrr keyrði ég þangað með fullan bílinn af börnum og Brunaliðið ómaði alla leiðina.  Nú í seinni tíma, með vaxandi aldri þá er flugleiðin notuð og bara eitt örverpi fær að fljóta með.

     Það sem gerir þennan stað að leyni er að hann fyllir mig orku....án þess að aðrir vita af því.....og sjá það heldur ekkert á mér og oft er það nóg þegar hugurinn er að fyllast af óróa.... þá meira segja nægir að hugsa um staðinn..... það kemur vissri ró á..... af því ég stefni að fara þangað fljótlega..eða kannski ekki!

 Að fara þangað er eins og ég fari yfir í annan heim, lifi jafnvel öðru lífi .  Algjör blekking en góð blekking á meðan á því stendur.

   Annað fólk hefur aldrei skilið hvað ég sé að flækjast þetta,  .........veðurteppist oft sem er bara plús í mínum huga en mikill galli hjá mínum yfirmanni.   Fólk hefur heldur ekki viljað skilja hvað það er mikil sæla að fara yfir í annað umhverfi, skilja karl og bú eftir og sitja ein að góðri vinkonu sem fátt getur haggað við...eyðir tímanum í að hlusta á mitt mál og er sérfræðingur í að láta mig eyða mínum krónum í fallega hluti.   En ég þreyttist seint að segja fólki að það sé eins langt fyrir mig að hitta vini mína þarna og þá að koma hingað.....en oft er það svo að við sem búum í borg óttans.... okkur finnst  sjálfsagt mál fyrir landsbyggðina að kíkja í kaffi!

  Jæja...leynistaðurinn....ef ákvörðun hefur verið tekin að fara á leynisstaðinn..ákvörðun sem þarf að taka í tíma...þá er brunað seint á föstudegi út á flugvöll....og tilfinningin að setjast niður inn í vél með beltið spennt er ólýsanleg.    Járnbrautastöðin sem var í höfðinu á mér....er skilin þarna eftir og ég loka augunum og held í höndina á því örverpi sem var svo heppið að fá að fljóta með...því ég er ekki meiri hetja en svo að flughræðsla gerir æ meira vart við sig.    Rétt fyrir lendingu  á vélin það til að dansa svolítið og sleikir yfirleitt þökin á kaupstaðnum sem stefnt á er og þá er gott að hafa vissan poka í kjöltunni.

Ísafjörður.   Engin tengsl önnur þangað nema góð vinkona og hennar fjölskylda búa þar og yfir tuttugu ár hef ég farið til þeirra, fyrst til Bolungarvíkur, svo  Hnífsdal.... og nú ‚ Ísafjörð.  

Vinkonan dró  mig eitt sinn á skíði þó ég hafi sjaldan stigið á skíði enda endaði sú ferð á því að ég gekk niður fjallið og átti að sekta mig fyrir það að missa skíðið niður.     Kajaka ferð þar sem selir syndu í kringum mig...fjallgöngur, bakstur fram á rauða nótt....og allar sundlaugar á Vestfjörðum hafa verið heimsóttar.   Annað misjafnt en skemmtilegt  segi ég ekki frá því það verður áfram leyni!

Aftur að leynistaðnum...vinkonan þessi býr í blokk á ...og útsýnið yfir bæinn er eins og fallegasta málverk og við stofugluggann þar sem ég get setið tímunum saman og horft á skýin, fjöllin, skipin og bæjarlífið...bæjarlífið beint í æð.    Allan tímann..sem er mestallur  tíminn... sem ég sit þarna er ég á spjallinu við fjölskyldumeðlimi en er eins og ég sé í sápukúlu sjálf og heyri í þeim að utan.  Algjör sæla.... fyllist orku...anda inn ...út.  Upplifi oft að ég hljóti að hafa verið Vestfirðingur í fyrra lífi...

IMG_3717[1]

Leynistaðurinn minn er þessi tilfinning í sápukúlunni  þarna í glugganum á Ísafirði þar sem ég soga orku staðarins  í mig og reyni að láta hana endast fram á næstu heimsókn...

GetLost....

 

 


Þú ert dýrmæt perla...mundu það

 

Verkefnið sem ég fékk á sínum tíma að ala ömmusoninn upp er að ganga vel á flestum sviðum...við erum eins og salt og popp....Tommi og Jenni....getum ekki verið án hvors annars og okkur finnst það gott.   En mitt verkefni er að gera hann sterkari, gera hann sáttari, tilbúinn að takast á við lífið með það sem hann hefur í reynslubankanum og erfðarmenginu.   Kvíði, árátta og alltaf viss um að allir gefist upp á honum hrjáði hann lengi en þetta er allt annar drengur í dag.  Drengur sem veit sínar sterku hliðar, er enn að máta sig við frænda sinn, prinsinn minn, en drengur sem er sáttur og veit að amma gamla er að gera það allra besta fyrir hann, stýra honum í gegnum tilfinningarótið sem hefur svolítið fylgt honum.Vestmannaeyjar (61)

Þegar ég á góðri kvöldstund, síðasta vor, sagði honum frá því að hann ætti annan pabba en þann sem hann var að gráta yfir af söknuði (en sá flutti af landi) þá horfði hann á mig og sagði annan pabba hvernig get ég það.  Amman fór í það að útskýra á sem fallegasta hátt kærustuparið sem á sínum tíma bjó hann til en hann hafi verið svo lítil þegar hinn pabbinn kom inn í spilið og að pabbi hans hafi viljað leyfa honum að vera í friði en alltaf samt hugsað til hans. Eftir smá umræðu var það sem ég fékk frá ömmusyninum..... yes á ég tvo pabba.

Amman fór og náði í albúm þar sem myndir af pabba hans og afa og ömmu voru og hann skoðaði vel.  Eftir nokkra daga kom svo..amma hvað heitir eiginlega þessi alvöru pabbi minn.  Svo þegar Eurovision keppnin var þá laumaði ég því að honum að hann væri hálf pólskur og hann ætti ömmu frá Póllandi þá vildi þessi litli karl kjósa Pólland inn í keppnina.  

Ekkert talaði hann um að vilja hitta þennan pabba sinn en ég spurði hvort hann mundi eftir fólkinu sem kæmi alltaf um jólin og gæfi honum pakka...hann hélt það nú góða fólkið eins og ég kallaði það alltaf.   Kom einu sinni að honum þar sem hann var að máta sig í spegli við myndir af báðum pöbbunum sínum en ég lét eins og ég hefði ekki séð það.   Hann og bróðir  hans eiga sama pabba að nafninu til en ég vildi frekar að hann frétti þetta frá mér en að heyra það kannski frá öðrum og eins hefur prinsinn minn vitað þetta og man eftir pabba nr.1 og ekkert hefur hann sagt.  Þvílíkur öðlingur hann sonur minn!      Það er ríkidæmi að eiga ást frá mörgum og mig langar til að hann upplifi það að það sé fleira fólk sem þykir vænt um hann og hann viti tengslin þar á milli. 

Hann hefur verið mikið að velta því fyrir sér afhverju litli bróðir sinn sé alltaf að fara til ömmu sinnar sem hann reyndar kallar líka ömmu sína og er honum virkilega góð  en hann hefur aldrei viljað fara með og gista hjá henni og sjálfur hefur hann ekki skilið það afhverju hann hefur ekki viljað fara...segir svo alltaf æææi amma það er bara best að vera hjá þér.  

 

Í dag lét ég vera að því að fara með hann til föðurfólksins síns sem ég þekki frá því í hann var minni og eins hafa þau komið hér við um jól og afmæli  og ég ber virkilega virðingu fyrir að hafa virt mína ákvörðun um að rugla ekki í drengnum.  Þarna fékk hann að sjá alla fjölskylduna sína en tilviljum réð að allir voru staddir þar.  Feiminn en samt spenntur hitti hann pabba sinn,systur sínu, frænkur og frænda, ömmu og afa.    Ég sem trúi ekki á tilviljanir en ég gekk að því vísu að faðir hans væri erlendis svo það var algjör plús að upplifa þetta svona i einni ferð.     Þarna vorum við dágóða stund og þegar við kvöddum fékk pabbinn  fast og mikið knús og ömmusonur gekk út með símanr. hjá pabba sínum.   Mitt ömmumömmu hjarta tók kipp við það því ég bjóst nú ekki við að hann vildi gefa mikið af sér...einn sigur í viðbót fyrir þennan unga mann.

Þar sem prinsinn minn fékk að fara með þá var umræðan á heimleiðinni svona..váá Breki þú átt systur, þú átt tvö systkini..já en þetta eru bara hálfsystkini mín svaraði þá ömmusonur....hvað með það sagði prinsinn minn....ég á bara hálfsystkini og þau eru ekkert öðruvísi en heil systkini.  Hjartað í mér....sprakk..af stolti.

 

Hafðu kjark til að vera þú sjálfur í heimi sem reynir að gera þig eins og alla aðra...Renee Looks

InLove...stolt mamma...ammamamma!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband