Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Bévítans krabbinn..

Ég hef staðið mig vel í að endurskoða marga hluti og einbeitt mér mikið að því að leggja mig fram við það að skilja stundum verk eftir ókláruð.  Held mér hafi tekist vel til.  Hlutverk mín eru mörg en það að leika sér með strákunum, segja þeim sögur, fá hláturskast með heimasætunni eru skemmtilegust en það er líka gott að  vera leiðinleg og drusluleg af og til og ég hef staðið mig vel þar líka!

Sex mánuðir frá síðustu myndatöku af heila míns ektakarls og það er í fyrsta skiptið í sjö ár sem svo langur tími hefur liðið á milli.  Endurtekið efni ...kvíði og áhyggjuhnúturinn fer af stað ómeðvitað að mér finnst,  en samt er eins og þessar tilfinningar liggi í dvala og svo fer allt af stað alveg sama hvað maður telur sig vera búin að læra af þessu brölti okkar hjónakorna til lækna og annarra fagmanna.

 Tuttugu og þrír mánuðir síðan ektakarlinn minn fór í aðgerð nr. þrjú og missti við það allan mátt vinstra megin í líkamanum og nú er komið að aðgerð nr. fjögur.  Í þetta skiptið er það á sama stað og æxli nr. tvö og það vekur furðu að það hafi getað dafnað þar því engar heilbrigðar frumur eru þar eftir en þeir eru tilbúnir að skera og minn karl meðtók það strax.   Það er eins og við séum inn í sápukúlu...tökum á þessu m eð einhverri ró en sofum illa og viljum bara að þetta sé frá.  Karlinn samt að vinna og fær mikið út úr því þó vinnuframlagið sé í takt við líkamsástandið.  Við hin í fjölskyldunni fylgjumst að í vinnuna en nú erum við fjögur sem erum á sama vinnustaðnum því litli karlinn var að hefja sína skólagöngu og er frekar montinn með það. 

Aðgerðin er núna í vikunni, sami staður , sami doktor og sama svítan að mér skilst.  Þetta verður langur dagur,  mikil ónot í mér varðandi þessa aðgerð en þetta er svo lúmsk og hraðvaxandi krabbamein að það er ekki eftir neinu að bíða enda aldrei hægt að venjast tilhugsuninni.

 

þar til næst....úff


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband