Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Að sama tíma að ári...meira en við bjuggumst við að fá..

 

 

Yndislegt að vakna í myrkvuðu herbergi og upplifa að ljósgeislar sólar og birtu bregða fyrir inn um gluggann og um mig fer sú tilfinning að allt fer að verða betra..svo miklu betra að vakna við þessa birtu þarna fyrir utan en svartasta myrkur.  Birtan skýst svo inn í undirdjúp sálarinnar sem þarf á allri þeirri orku að halda sem hægt er til að brosa framan í daginn.  Sjaldan sem ég hugsa að breiða bara yfir höfuð og fara ekki á fætur því þá gæti ég misst af einhverju...einhverju sem kæmi ekki aftur.

 Einn lítill drengur sem ég hef lifað með í næstum tíu ár vaknar nefnilega á hverjum morgni í því besta skapi, fullur orku og jákvæðni og brosið nær allan hringinn hjá honum og andlitið uppmálað af hamingju, hamingju að vakna og tilbúinn í hvaða átök sem eru væntanleg.  Hvort sem það er að leita af gulli (allt drasl sem aðrir vilja losna við eða skartgripaskrín ömmu sinnar) eða takast á við þá áskorun að fara í danstíma í skólanum og haga sér vel þá fer hann af stað með þá ákvörðun að standa sig vel.  E-ð sem margir mættu íhuga aðeins...standa sig vel hvernig sem það svo heppnast.  Þessi ömmusonur  tekur lyf við ofvirkninni sinni sem hjálpar honum við það að aðrir upplifi hann á jákvæðan hátt og eins stillir það hann í hvatvísinni og hann nýtir sér það besta í umhverfinu og að kveldi er hann enn í góðu skapi..og hugsar hvað hann geti brallað daginn eftir.  Öfundsvert er það ekki?

Unglingurinn fermist  1. apríl og þar sem veislan er að baki þá er það á óskalistanum að fara á Hamborgarafabrikkuna eða bara að fá ömmurnar sína hingað heim í kaffi. 

2. apríl fer minn ektakarl í sina sjöttu aðgerð. Fyrir ári fór hann í sína fimmtu aðgerð eða 9. apríl. Næstum ár í friði..en á biðstöðinni allan tímann.  Tíminn er lengi að líða og öll vildum við að þetta væri frá en þolinmæðin er dyggð og viss stilla sem ríkir hér yfir heimilinu og önnur mál skipta minna máli en kannski hjá flestum öðrum.  Ektakarlinn er í prógrammi að undirbúa sig, gengur og stundar ræktina og svo veit ég að í huganum er hann farinn að undirbúa sig líka hvernig hann ætlar að jafna sig á þessu..að hafa nóg að gera er á dagskránni allan daginn hjá honum.  Það besta við það er að það er meira segja hægt að fá hann til að þrífa og þrifa alla íbúðina og meðan við förum í sund og ísferð því hann elskar það að vera einn heima með tónlist í eyrunum og ryksugar á fullu og já það er hægt með einari Grin 

Við erum eiginlega að gera honum greiða að fara að heima...eiginlega!

já svona er hægt að plata sig endalaust en það virkar fyrir okkur

InLove..krossum putta og þetta gengur vel.


Fjallið háa...

 

Við ráðum ekki miklu  hvernig allt fer en við ráðum yfir líðan okkar og það að vera jákvæður er að öllu leyti betri kostur en að vera neikvæður. Hef reynt það seinna og það er of mikil vanlíðan og maður endar á vondum stað og það hjálpar ekkert í þeim aðstæðum sem upp koma.   Það er engu eða engum að kenna að hlutirnir fara eins og þeir fara en allar ákvarðanir sem við tökum geta haft  allt aðrar afleiðingar en við ætluðum okkur í upphafi.   Verstu ákvarðanir eru líklega þær, þar sem orð koma við sögu, við særum og oft ekki hægt að taka tilbaka.  Særindin sjást ekki en við berum þau með okkur og oft erfitt að útskýra afhverju þessi orð særðu.   Fyrir  mörgum árum lofaði ég sjálfum mér að engin fengi að fá útrás fyrir reiði sinni á mér, ég mundi ganga frá því borði.  Þetta hefur komið fyrir nokkrum sinnum að fólk hefur verið að missa sig og án þess að hugsa þá vill það láta vonskuna dynja yfir mann.  Hvað sem einhver hefur gert eða ekki gert þá fer gríðarleg orka í það að vilja þrusa yfir viðkomandi þegar miklu betra er að segja eins og er og ræða hlutinn.   Eigum við þá e-ð að tala um misskilning á milli fólks...við upplifum hluti ekki eins og svo forgangsröðum við ekki hlutum eins í lífi okkar.  Enda öll einstök.

Við hjónakornin í samvinnu við gott fólk ákváðum t.d að halda fermingarveislu sonarins áður en sjálf fermingin fer fram svo hann fengi veislu þar sem allt snerist um hann og engar áhyggjur sveima yfir fólki..og það tókst snilldarlega og er ég svo glöð og hrærð yfir hvað vinir og frændfólk stóðu við bakið á okkur á þessum degi.

2013-02-17_14_48_33.jpg

Minn ektakarl fór í myndatöku fyrir um mánuði þar sem sáust tvö æxli í aðgerðarholunni en þá voru 8 mánuðir síðan hann fór í aðgerð og tvö æxli voru fjarlægð -alltaf af þriðju gráðu.  Eftir umhugsun og ráðgjöf lækna var ákveðið að bíða og taka mynd eftir mánuð sem var í síðustu viku.  Þessi tvö æxli hafa aðeins stækkað, eru nú um 2,3x 2,4 cm hvort um sig og liggja upp við hvort annað og vaxa inn í aðgerðarholuna þar sem nóg pláss er fyrir þau og þau angra minn ektakarl ekkert. Það sem kom nú fram er að það sést nýtt æxli á Hippocampus svæðinu 4 mm. að stærð. Drekinn sem þetta svæði er oft kallað á íslensku.  Skammtímaminnið er á þessu svæði heilans og það er það sem hefur verið að þvælast fyrir mínum manni undanfarið, alltaf að spyrja um sama hlutinn eða rugla tímasetningum, e-ð sem við hin erum smám saman að læra inn á.  

Þetta fann ég þegar ég var að leita upplýsinga:

Hvað gerist þegar Hippacampus -drekinn í heila verður fyrir skemmdum?

Skemmdir í dreka eða í þeim taugum sem hann tengist getur valdið minnisleysi/minnisskerðingu (vangetu til að læra og muna nýjar upplýsingar). Fólk sem þjáist af minnisleysi er ófært um mynda nýjar minningar í langtímaminni og það gleymir nýjum upplýsingum fljótt. Sem dæmi, þá hafa rannsakendur sýnt að fólk sem þjáist af minnisleysi glatar ekki getu sinni til að gera hluti sem það lærði fyrir minnisleysið í gegnum margra ára æfingu, eins og að spila á spil, en þeir gleyma hins vegar nýrri upplýsingum, eins og nafni einstaklingsins sem þeir eru að spila við.

hippocampus.png

 

Við hjónakornin ræddum þessa stöðu fram og tilbaka og á endanum var ákveðið að við töluðum sjálf við skurðlækninn og fá það fram hvort þetta sé skurðtækt eður ei.   Okkar góði læknir sagði það nú einum og oft að þetta væri ólæknandi sjúkdómur og taldi upp alla vankanta á þeim aðferðum sem hægt væri að beita sem ég veit vel hverjir eru.  Það eru ekki margir sem hafa farið í fimm heilaaðgerðir á sama stað, eða margir sem lifa 9 ár með heilaæxli af þriðju gráðu enda minn karl með eintæmum heppinn hvað sem aðrir segja um það því þessi æxli hafa alltaf droppað upp í aðgerðarholuna sem myndast við hverjar aðgerð eftir aðra..tómt rými þarna í höfðinu á honum.

  Ég þarf að bregðast ansi fljótt við því daginn eftir þessar fréttir uppgötvaði ég á óþægilegan hátt að minn maður mundi ekkert hvað kom út úr þessum samræðum við doksann og alls ekki að það væri komið enn eitt æxlið.  Á vissan hátt gott en fyrir mig frekar erfitt því hann þekkir svo marga og sagði þeim að allt gott væri að frétta af háloftinu hjá honum.  Það er allt gott að frétta, þetta er ekkert það versta í stöðunni en það er óþægilegt að vera sú sem þarf svo að draga það allt tilbaka og því ákvað ég hér með að fara að blogga að nýju til að létta mér lífið og það jafnvel hjálpar einhverjum að fá fréttir.  Ektakarlinn minn á dóttur sem býr erlendis og hún á erfitt núna að meðtaka þetta allt saman og vildi svo vera hér hjá honum en hún á sitt líf og pabbi hennar er svo upptekinn enn að sinna sínum áhuga- málum sem eru enn ansi mörg.  Veit ekki um neinn sem er svona upptekinn að vera til og njóta vina sinna og fótboltans.   

InLove..minni bara á að dagurinn í dag er ekki morgundagurinn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband