3.7.2013 | 12:45
Upphafið á krabbaferðinni
Fyrir nokkrum árum hélt minn ektakarl að hann væri örugglega með hæfileika sem miðill, hann sæi oft gamlar konur í húsakynnum hjá fólki og heima hjá okkur sat alltaf gömul kona í sófanum að hans sögn og það var orðið þannig að hann bauð henni stundum góðan daginn!
Ég að sjálfsögðu gerði óspart grín af þessu í mínum vinahóp sem samanstóð af góðum vinkonum og alltaf fékk ég sama svarið frá þeim að ég væri bara ekki nógu góð við hann Sigga en á sama tíma skellihlógu þær af þessu andabrölti í honum. Gekk svo langt að ein af þeim sem vildi fá hann til að mála þakið fyrir sig neitaði að vera heima því hún var alveg viss um að hann sæi e-ð heima hjá henni.
Það sem ýtti undir þessa hugmynd hjá honum var að oft heyrði hann raddir eða rödd og oft á tíðum fannst honum hann kannast við þessar raddir en á sama tíma fékk hann oft vont bragð í munninn. Verst þótti mér nú þegar hann var að mála bratt þak og hann fann þetta hellast yfir sig að þá hélt hann í skortsteininn og lagði sig allan fram við það að reyna að heyra hvað þessi rödd væri að segja honum. Sjaldan sem hann skildi röddina.
Og alltaf hlógum við af þessu..bæði við hjónakornin og vinahópurinn...því lýsingar voru þess eðlis.
Svo var það eitt kvöldið sem minn karl skilaði sér ekki í rúmið en oft sofnaði hann í sófanum þreyttur og já líklega hjá þessari gömlu konu þegar ég hugsa það í dag..þarf að ræða þetta við hann. Minn vani var að kalla á hann úr rúminu og það virkaði alltaf ..hann kom og lagðist mér við hlið. En þetta kvöldið kom engin ektakarl og ég stóð þá upp og ætlaði að ná í hann eins og góðum eiginkonum sæmir. Hann lá þá á gólfinu sofandi með alla skanka í skrýtnum stellingum og blóðugur um munninn. Erfitt var að vekja hann og enn erfiðara að tala við hann við fórum upp í rúm og hann sofnaði undir eins. Morguninn eftir þá var það ansi stirður karl sem vaknaði og staulaðist fram með auma tungu og talaði um það að hafa örugglega bitið í tunguna á sér. Ég var alls ekki sammála honum og vildi meina að hann hefði fengið flog eða e-ð og vildi að hann færi til læknis en hann harðneitaði þeirri tímaeyðslu..þetta væri nú ekkert..væri bara stirður eftir erfiðan burð í vinnunni. Það sem ég er frekar erfið þegar ég bít e-ð í mig þá varð mér á endanum að segja við hann að ef hann færi ekki til læknis þá mundi ég bara skilja við hann ef hann ætlaði ekki að taka ábyrgð á heilsu sinni.
Þennan morgun var ég á leið til föður míns sem var að deyja vegna krabbameins og var inn á sjúkrahúsi og þar sem ég held í höndina á pabba þá hringdi síminn og minn ektakarl sagðist vera sendur í skanna upp á spítala til að útiloka e-ð alvarlegt eins og hann sagði. Eins gott var eina svarið sem hann fékk frá mér enda var ég ekkert að hugsa neitt alvarlegt, ég vildi bara að þetta yrði athugað.
Tveimur tímum seinna hringir ektakarlinn aftur og vildi fá mig heim. Hvað ert þú að gera heima spurði ég karlinn sem aldrei tók sér frí og elskaði að fara í vinnuna sína og ég þurfti alltaf að gera stórátak í að hann tæki frí með okkur.
Það fannst e-ð í höfðinu á mér, æxli sem þarf að athuga nánar sagði hann þá. Þarna sem ég hélt í höndina á pabba stöðvast tíminn í smástund, skellti á karlinn og stóð upp. Pabbi minn sem var búinn að vera í móki opnaði augun og sagði Inga mín hvað er það með hann Sigga.
Ég sagði honum það og þá sagði hann: Það verður í lagi með hann Sigga...þið eigið nógan tíma eftir.
Nú níu árum eftir að faðir minn dó þá hugsa ég til þessara orða..og jú við höfum fengið góðan tíma og gert margt og mikið og enn er minn karl að ...bíður spenntur eftir afastrák sem er væntanlegur í ágúst og svo öllum þeim fótboltaleikjum sem hann nær að fara á.
En þessir miðilshæfilekar hans eru víst algeng einkenni heilaæxlis og því miður ekkert að hafa upp úr þeim en hláturinn lengir lífið og þegar þessi saga er rifjuð upp þá glymja hlátraköstin hátt og hæst heyrist í mínum ektakarli.
...segi það að mikið vildi ég panta hláturskast á hverjum degi
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.