Bloggfærslur mánaðarins, október 2010
28.10.2010 | 12:25
Fengum góða skoðun
Já allt eðlilegt miða við aðstæður sagði doksi í morgun. Í gærkveldi vorum við fullviss um að eitthvað væri að fyrst engin hringing kom en náðum okkur niður og sögðum við hvort annað það gæti þá ekki verið neitt verra en annað sem við höfum gengið í gegnum....og við sváfum vel í nótt. En gott að fá þessa hringinu í morgun....yes. Að lifa í svona þriggja mánaða pakka er farið að taka á, sérstaklega þegar einhverjir atburðir eru framundan og ég alltaf til í að gera allt en minn ektakarl á hikinu, vill aldrei neitt og ekki plana neitt.
En nú sagði minn ektakarl....það er ekki frá því að mér sé létt. Karlinn sem aldrei vill viðurkenna að hann hafi áhyggjur.
...bara frábært
24.10.2010 | 20:04
Hnútur sem vex
Krummi og karlinn minn eiga sínar stundir og mig grunar nú að þessi fugl fái að heyra meira um hugsanir og ótta sem hljóta að skjótast upp í kollinn á mínum ektakarli.
Vaxandi óþol er að magnast upp hjá mér og ákveðin grunur um að það er ekki allt í lagi magnast og nú bara verð ég....ég hringi á morgun á bið um myndatöku. Ég væri bara í afneitun ef ég læt eins og allt sé í besta standi og það er margt sem er að trufla daglegt líf hjá mínum ektakarli og hann var sammála mér um að biðja um myndatöku.
Yngri ömmusonur á afmæli á morgun og við erum búin að stefna strákunum á deildinni hans hingað í skemmtileg heit og ég tek upp harðstjórataktana svo allt gangi vel fyrir sig. Ratleikir og þrautir og eitt stykki af fótboltaköku.
...en það er eins gott að ég nái í doktorinn.....ses!
19.10.2010 | 18:24
Draumórar eða martröð
Allflestir kannast nú við það þegar tiltekin líffæri taka af mann völdin og halda manni yfir salerninu og það er eins og tær og neglur og allt annað þar á milli reyna að koma þessa leiðina út. Kárnar stundum gamanið þegar e-ð annað bull vill um leið komast út um neðri endann þannig að ef maður er ekki með tvö salerni hlið við hlið þá flækjast málin, gólfið, baðið eða ruslatunnan. Það kallast svo algjört þrekvirki að komast upp í rúm á eftir og tilhvers....jú til að gera aftur það sama eftir einhverjar mínútur.
Nú fyrir helgi var ég í þessum draumi nema hvað að mér var um leið svo kalt að ég gat ekki tjáð mig og allir heimilismenn farnir í skólann og ekki hafði nú minn ektakarl nú mikinn áhuga að sitja yfir svona löguðu. Í einhverju vitrænu ástandi hef ég nú verið því gemsinn minn var fastur við mig upp í rúmi og því þegar karlinn hringdi til að athuga með líðan þá skildi hann ekki orð frá mér og varð víst pínu áhyggjufullur og hringdi í hjúkkuna góðu í næsta húsi. Alveg sama þó hún væri í vinnunni, hún átti að fara heim og kíkja á mig en ég gat ekki einu sinni gert mig skiljanlega við hana í síma hvað þá hleypt henni inn. En allt í einu heyrði ég raddir, karlinn e-ð tuðandi og svo þessi rólega rödd sem sagði við verðum bara að kalla á sjúkrabíl. Ég skjálfandi eins og ég væri nakin í miðju íssbaði, tennurnar á fullu en samt hugurinn var í miðri sögubók með ömmusyninum því þetta var ekki að gerast fyrir mig, klettinn!
Hvenær ertu fædd..heyrði ég einhversstaðar spurt og fannst eins og ég lægi í skotti á bíl, fann olíulykt og hristist upp og niður eftir rússíbanabraut og þá komst það að mér...jæja það er bara verið að flytja mig eitthvert en skjálftinn hélt áfram þannig að ég var nú farinn að efast um að tennurnar mundu þola þetta skrölt. Næst var það mikill birta og og yfirheyrsla um þessi fyrrgreindu mál sem ég varla gat sagt frá ´vegna fjörsins í tönnunum...og stungur og hjartarit, lungnamyndataka og þess á milli lá ég á hörðum bedda og fjörið á salernið hélt líka áfram. Þegar leið á kvöld var ég flutt á eftir hæð og viti menn í einangrun sem ég uppgötvaði þegar tveir hjúkrunarfræðingar komu inn til mín með e-ð fyrir vitin, í hönskum og sloppum en með þessi svakalegu brosandi augu þannig að ævintýrið í þeim hluta heilans sem líklega var enn heilt tók því þannig að sögubókin héldi enn þá.
Að þræða nál í æð klæddum hönskum er ekki e-ð sem lærist í skólanum hjá þessum elskum uppgötvaði ég eftir að plástrarnir voru orðnir jafnmargir og mínir afleggjarar og þá loksins tókst það.
Vondi karlinn í sögubókinni vildi meina að ég væri með vonda bakteríu og mig ætti að loka inni og engin mætti hitta mig og allt frá mér var brennt eða soðið. Váá..hvað næst hugsaði ég og fannst þetta bara eðlilegasta mál í heim...alvön kona á ferð. Hugurinn var nú fljótur að fara til prinsanna minna...ömmusonurinn sem er með algjöra þráhyggju ef hann veit ekki hvar ég er, prinsinn minn sem átti að fara að keppa á fótboltamóti og mamma gamla alltaf verið á staðnum og raunveruleikinn ýtti draumórunum tilhliðar og ég hringdi í minn ektakarl og bað hann um að láta vera að segja þeim hvar ég væri...bíða aðeins með það. Þessar mömmu/ömmur halda alltaf best og vilja stjórna hvað sem á dynur, mikill galli!
Þarna var ég í 3 sólarhringa, starfsfólk kom inn til mín á þriggja tíma fresti en annars horfði ég yfir voginn til að byrja með, ekkert annað hægt að gera vegna slappleika en svo þegar þeim datt í hug að sprauta mig með háskammtasterameðferð þá fór nú fjörið að aukast hjá minni og ekkert meira varð úr svefni. Þarna er ekki hægt að opna glugga en stórgóð loftræsting í gangi þannig að upplifunin var eins og götuþvottabíll væri að störfum þarna inni hjá þér.
Karlinn stóð sig vel hér heima enda hafði ég engar áhyggjur af honum þó hálfur sé að getu líkamlega þá gerir hann það sem þarf að gera, öðru sleppir hann. En að koma heim og fá knús frá þessum prinsum mínum segir mér að kletturinn verði að fara vel með sig , hann þarf að þola nokkrar sóknir enn og standa uppi í langan tíma enn. Við þurfum öll á því að halda. Held mig við rólegar sögubækur á næstunni og anda að mér ilmnum af körlunum mínum og þakka fyrir það að geta opnað gluggann.
...næst
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)