Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013
27.6.2013 | 20:37
Siglufjarðar...draumurinn
Veðrið og líðan mín eru frekar stillt saman þessa dagana. Var ég að heyra og skilja það sem doktorinn sagði okkur eða var þetta martröð. Er e-ð búið að breytast eða á e-ð að breytast, á mér að líða öðru vísi eða á ég að brotna niður....hvað á að gera annað en að halda áfram...get ég nokkuð annað gert en að njóta tímans?
Ektakarlinn fer sínar leiðir og engin leið að fá hann á spjall um tilveruna eða annað sem hvílir á honum. Siglufjörður er á óskalistanum og það á að vera hittingur þar um helgina af ungum körlum sem spiluðu saman fótbolta eitt sumar fyrir hartnær 35 árum og minn karl fór í sína fyrstu utanlandsferð með þeim þá.
Eftir helgina ætlar hann svo að hugsa það hvort lyfjameðferð sé kostur eða ekki...en til Siglufjarðar ætlaði hann aldrei að fara slappur .....nei ekki í dæminu!
Kerfið hjá mér er samt ekki að meðtaka allt saman og líkaminn fór í verkfall og hleypti hlaupabólu af stað til að mótmæla en mig minnir að mamma hafi sett okkur systkinin saman í sæng til að allir væru veikir í einu og hjúkraði og stjanaði svo við okkur. Þetta er víst ekki í boði í dag og engin sem vill vera veikur með mér og aðrir heimilismenn segja bara ojj þegar ég vil fá knús.
Letistuð á mér og það kemur út sem tiltektaræði, henda, þrífa og gefa með smá kryddi af hlaupabólu sem gefur þessu öllu saman smá lit.
...Siglufjörður og bólan um helgina
19.6.2013 | 12:26
Hrókur alls...og gerir óspart grín af sér
Svefninn langi... sem minn ektakarl talar um í hvert skipti sem hann er í letistuði/þreytustuði að mínu mati en þá grunar hann að þessi langi svefn sé að nálgast. Hann nálgast en það er nú ekki að sjá á mínum karli að þessi svokallaða dagsskrá hansi breytist e-ð við þá vitneskju en hún felst í að trufla vinnandi fólk, sjúkraþjálfun og smá krydd af yndislegum karlmönnum sem hafa sama genamengi og minn karl eru Þróttarar inn að beini...og þeim þykir alveg innilega vænt um ektakarlinn minn. Það að hlusta á sama brandarann aftur og aftur og hlæja alltaf jafn mikið af honum sýnir hvaða skilning þeir hafa á veikindum hans og trúmennsku við hann.
Þeir sem þekkja til míns karls vita að hann er með ferlega húmor, svartan húmor og les oft ekkert í þær aðstæður að fólk fái yfirleitt fyrir hjartað eða bara haldi að hann sé kolvitlaus. En það er vandamáls þess...minn er hrókur alls ef hann fær að ganga fram af fólki.
Aðeins hérna til að leyfa ykkur að sjá þetta með eigin augun ...
Svona er fjörið búið að vera undafarna daga...og enn er það þreyttur en mjög svo þreyttur karl sem kemur inn og leggur sig aðeins.
.... svona verður þetta áfram hjá okkur í sumar
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.6.2013 kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2013 | 10:51
Tíminn sem eftir er....nýta hann vel
Tíminn er mikilvægur og oft heyri ég að fólk segist ekki hafa tíma til þess og hins. Nú er svo komið að tíminn hjá mínum ektakarli er ekki mikill eftir hér á meðal oss. En sá tími er mikilvægur og hann er það líka fyrir aðra sem þykja vænt um hann og vilja samskipti við hann. En ég upplifi aðeins að það er eins og það að vita að hans tími er ekki langur eftir gerir það að verkum að vinir og ættingjar hræðast það að hitta hann, finnst það e-ð svo óraunverulegt eða bara afneitum um að þetta er að gerast og þá er best að hitta ekkert á hann því þá gerist þetta auðvita ekki eða hvað .
Stundum getur það verið að tíminn sé ekki nógur og hugurinn fer með mig langar leiðir hvernig sé best að nota tímann.
Við fengum þær fréttir að æxli hafa dreift sér um allan heilann og lítið hægt að gera nema lyfjameðferð sem gæti hægt á sjúkdómnum en ekki læknað eitt eða neitt og minn karl þurfti ekki langan tíma til að ákveða það að fara ekki í lyfjameðferð vegna hugsanlegra aukaverkana. Hann vill fá gott sumar, njóta sólar og fara á alla þá fótboltaleiki sem hann getur án þess að ógleði og þreyta séu að gera út af við hann, æxlin sjá um það nógu fljótt.
Ég grét mikið í tvo daga og erfiðast var að tala við öll börnin en þá spruttu mörg tár fram en eftir það sá ég að þetta var algjör eyðsla á dýrmætu tíma, tíma sem ég gæti notað í e-ð þarfara en að vorkenna sjálfri mér og fór að skipuleggja minn tíma. Vonlaust mál að skipuleggja tíma ektakarlsins því hann fer sínar eigin leiðir og fótboltaleikir stýra hans tíma.
Líka svolítið kómískt að segja fólki þessar fréttir og svo hittir það minn karl í Bónus og verður kjaftstopp. Ferðirnar hans hafa minnkað þangað því miður en hann er ekkert veikur hér ...hann er þreyttur og syfjaður og það er það sem mun aukast og verða þau einkenni sem við finnum mest fyrir og jú minnisleysið sem er eintómt grín um það hvað það sé nú gott að geta gleymt og líka kúnst að þykjast gleyma.
Margir spyrja mig líka í kjölfar frétta hvort hann sé á sjúkrahúsi og hversu veikur hann sé. Í mínum augum er hann ekkert veikur, hann er maðurinn minn sem er á þönum allan daginn og í vikunni sem leið var hann allan daginn að hjálpa nágranna að smíða pall og það kom ansi þreyttur karl inn til að fara að sofa en brosið náði hringinn...en fór beina leið í rúmið og svaf lengi. Vikan þar á undan svaf hann 15-17 tíma á dag en svo kemur svona vika þar sem orkan er endalaus.
Breytingarnar munu koma nógu fljótt og ekkert hægt að undirbúa sig undir þær. Fengum fyrstu heimsókn frá heimahlynningu Landspítalans en öll fjölskyldan mun njóta góðs af þessum heimsóknum sem eru til ..að auka og viðhalda lífsgæðum sem lengst.
Hafið það nú hugfast..notið tímann vel og í það sem þið viljið nota hann... en ekki það sem þarf að nota hann í....njóta !
..erfiðara að gefa af sér þessa dagana en það mun koma..
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)