30.9.2009 | 22:11
Æxlið á brott
Æxlið var tekið í gær og vonandi ekkert meira en það. Minn ektakarl vildi ekkert mikið hugsa út í
aukaverkanir, allt á alltaf að vera í lagi. En við erum ekki alltaf svo heppin og í þetta sinnið fór svo að mikil lömunareinkenni koma fram vinstra megin fram í líkamanum. Þar sem þetta er í þriðja skiptið sem hann fer undir hnífinn þá er þetta alltaf það sem ég óttast, ekki minn ektakarl. Öll ævintýri enda ekkert endilega vel en hann er á lífi og það skiptir mig máli en reyndar er ég viss um að þetta endi vel. Lífið er ekki dauflegt á okkar slóðum, nóg að gera og það að stappa stálinu í minn mann núna í kvöld reyndist mér létt verk. Ég bað hann vinsamlega...já ég var vinsamleg.. að líta til baka á okkar ár saman og segja mér hve oft við hefðu getað gefist upp og hve oft sorgirnar hafa skapað hamingjustundir þó það hafi kannski ekki gerst akkúrat á þeim tíma sem við vildum.
Við gefum okkur tíma til að komast yfir þetta, gefum okkur tíma til að sjá hvort þetta hverfi ekki tilbaka sem oft gerist með svona stælta og flotta menn.
Við höfum hamingjuna aðeins að láni....minnum okkur á það.
..þar til næst
22.9.2009 | 23:30
allt að koma
Hittum einn í viðbót doksann í gær....sem hafði aldrei hitt eins ríkt fólk og okkur. Ríkt af börnum...
Hann vildi gera allt fyrir okkur og sagðist vilja veita okkur eina góða ósk.... og fór höndum um lampann.
Óskinn okkar var að minn ektakarl fengi að sofa betur og lengur og að það leiði af sér að ég sofi lika betur. Hann hafði einhverjar meiri áhyggjur af mér....og vildi meina að ég væri varla í ástandi til að vinna. Eins gaman og það er í vinnunnni....og aukavinnunni....já stundum er útidyrnar heima hjá sér ógnandi.
Aðgerðin í næstu viku...og við öll að venjast tilhugsuninni. Full kista af góðum fisk sem góðir vinir fá að njóta um helgina og dekur við okkar á öllum vígstöðvum.
..ses
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.9.2009 | 23:51
Tárinn renna hjá prinsinum....
Erfitt að vera bara 10 ára og þurfa að að hugsa um erfiða hluti...og þá er gott að setja koddann yfir eyrun ..neita að hlusta og tárin renna...en ég vil að hann fái að fylgjast með eins og hann getur miða við aldur og eins vil ég ekki að hann heyri e-ð um aðgerðina annarsstaðar. En hann er frábær...og ég verð að monta mig af þessum dreng sem sýnir hér listir sínar með bekkjarfélögum. Ömmusonur er nú á þeim aldri þar sem allt er bara svart og hvítt....flott afi hjá lækninum að taka þetta bara...þá verður þú kannski ekki svona pirraður lengur
..þar til næst
Vinir og fjölskylda | Breytt 19.9.2009 kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.9.2009 | 20:03
Slípa hnífinn...út með allan aukavöxt!
Ákveðið var að fjarlægja þetta æxli sem vill vera að troðast þarna inn í tóma rúmið, enda kannski ekki vanþörf á þegar það kom í ljós...að þarna var um upprunalega æxlið að ræða sem var fjarlægt fyrir 4 árum að hluta til en við vissum alltaf að það væru leifar eftir vegna þess hve langt það lá inn í miðju heilans og engin áhætta tekin með það þá svo við vissum alltaf af þessum afgöngum. Þarna var um 3.stigs og að hluta 4. stigs æxli og nú er það að vaxa áfram í hjólför fyrra æxlisins...sem er betra mál en ef það væri að fara í hina áttina. Áfram er þetta alltaf að gerjast innan geislasvæðisins sem er líka gott...margt bara gott mál við þetta heilakrabbamein..sem þýðir líka að hægt er að fara inn á sama stað, opna títaníum hlíðið sem er þarna og þræða sig upp í sama farveginn...og burtu með þetta! Fyrir okkur er þetta viss léttir að það er e-ð gert núna því erfitt hefði verið að hugsa um þetta eða ekki hugsa um þetta að næstu myndatöku sem hefði líklega sýnt okkur að þetta hefði stækkað og jafnvel í aðrar áttir...jafnvel og kannski eru orð sem við notum mikið enda mikil von í þeim. Vonin um að hægt sé að ráðast á þetta..vísindunum fleygir fram, ný lyf alltaf að koma fram og tæknin er alltaf að verða betri og betri.
Þetta gerist líklega í næstu viku eða þarnæstu....minn ektakarl getur ekki lengur legið í dvala og látið eins og ekkert sé að...farinn út að hlaupa og koma sér í betra form.
...þar til næst
15.9.2009 | 21:19
ég óska þér gleðinnar...
já það er margt sem hægt er að njóta...og nú er ég engin Pollýanna. Ég barasta elska að gera það sem mér finnst skemmtilegt og gefur mér mikið. Eigingjarna ég!
Ég óska öllum þess að deila gleði með einhverjum sem þykir vænt um þá.....óska þér þess að geta brosað þó það engan veginn passi inn í umræðuna. Yndislegar minningar eru þess virði.
Að láta heillast ...að vera ástfangin af raunveruleikanum....ekki forðast hann!
í kvöld átti ég yndislega stund....dóttir mín hér heima er með enska vinkona sína og ég vildi að hún hitti sem flesta úr fjölskyldunni....hmm já....nærfjölskyldunni. Tveir stjúpsynir, ein dóttir og ensk vinkona, ein tengdadóttir án sonar míns sem var að fara á sjóinn, einn prins sem var mjög upptekinn af Mann...fótboltaleik og hljóp út og inn til að fylgjast með og svo litli ömmusonurinn...ömmumömmusonurinn, Minn ektakarl var hér jú líka en var svo spenntur því vinirnir úr old boys höfðu kallað á hann...og stoltið rauk...út á haf og hann ákvað að mæta. Við erum rík...átta börn....tvo ömmusyni þar sem annar býr hér....tengdabörn sem taka okkur eins og við erum og svo eru það þessu fyrverandi tengdabörn líka. Við erum líka rík af tengdamömmum og pöbbum......já ríkidæmi það er ef við hugsum um börnin okkar og já ég er rík af fyrrverandi eiginmönnum og mæðrum stjúpbarna minna. Sumum finnst þetta skrýtið en hugsum um það.....á
ákveðnum tímapunkti þá þótti okkur mikíð vænt um þetta fólk...og við verðum tengd því......í gengun börnin okkar, barnabörn svo við skulum muna þessar tilfinningar. En OK ég furða mig oft á minni miklu hæfni að láta þetta allt púslast upp.. .en þetta fólk er bara svo gott fólk....enda um hvað annað að velja??
Vinur er sá sem veit allt um þig og metur þig samt mikils......orð sem ég met mikils
Heyri í skurðlækninum á morgun....svo er annar krabbalæknir í næstu viku. Svo gott að hafa e-ð svona smá að gera í hverri viku...það ýtir alvarleikanum frá. Segi samt eitt....allir sem eiga í svona erfileikum...veikindum....krísu...tala um að eiga góða að...fjölskyldan stendur við hlið þeirra....HMMM ..við eigum okkar börn..og erum á fullu við að stappa í það stálinu,....og við sækjum okkur hjálp...í vini og fagmenn. Minn ektakarl er reyndar í alvarlegri afneitun...og mér finnst það í lagi. Ég hugsa um mig,....pínu um hann Forðast fólk okkur vegna vandamála....sem eru ekki vandamál...þetta eru veikindi...en ekki langar mig að taka í hendina á fólki sem mætir á endanum í jarðaför en hefur ekki látið sjá sig eða látið heyrt í sér í ára.....tugi!
...þar til næst,,,,
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.9.2009 | 23:45
Æxlisskömin....skemmda vínberið!
Á heilamynd sáust ....the black holes....tómarúm þar sem fyrri æxli höfðu verið og jú heilavefur líka sem er nú farinn. Skrýtið að það er hægt að missa svona parta...flest allt virkar eðlilega. Þarna er æxli að vaxa...æxli á þriðja stigi líklega, inn í tómarýmið þannig að það þrýstir ekkert á og hann ætti ekki að finna fyrir þessu. Spurning um hvort þetta væri þá ekki líka að vaxa inn á við....var ekki hægt að svara. Þetta er enn innan geislasvæðisins...og þessi læknir vill ekkert gera...sjá til eftir þrjá mánuði en um leið vitum við öll að það eina sem gerist í stöðunni er að þetta vex og í næstu myndatöku verður þetta orðið stærra. Minn ektakarl vill treysta á sinn lækni svo rosalega gott að vera í afneitun ekki verða neitt erfiður en ég vil fá meiri pælingar og hitta annan lækni. Pantaði tíma hjá öðrum í næstu viku...og minn maður er sáttur við það!
...góður dagur í dag...báðir prinsarnir tóku þátt í Grafarvogshlaupi fyrir sinn skóla og unnu gullið.
Þar til næst
31.8.2009 | 21:39
..hvert liggur leiðin
Einhvern tímann hefði ég sagt það er komið nóg en í botnlausa hítina er alltaf hægt að setja aðeins meira ...og alltaf er tekið við. Er eiginlega fyndið að ég á unga aldri hafi langað í ellefu börn..heilt fótboltalið! Já það er hægt að skemmta sér yfir mörgu og eins fáranlegt og það er þá er alveg yndislegt að fá hláturskast yfir vitleysunni í kringum sig. Í dag á ég fótboltaliðið ef ég set ektakarlinn í markið...
Ekki margir heldur sem fá að upplifa það að kjólalína sé skírð eftir sér...og að meistari vinkvennanna hafi komið færandi hendi með ...og klætt mig upp í kjólinn minn, sérhannaðan á mig! Hvað er annað hægt að gera en að knúsa svona vini! Kjólinn heitir sem sagt Inga!
Tveggja eyja sýnin...verður þessa sumar minnst.....Vestmannaeyjar og Hrísey...já allt getur gerst og langt langt í burtu sé ég það alveg gerast að ég komi mér fyrir í værðinni sem ríkir þarna fyrir norðan, hugsa um hanana og hjörðina þeirra með ölduniðinn fyrir utan gluggann. Önnur frábær vinkona dró mig nauðuga með sér norður...og þó ég hafi sprungið í Borganesi yfir kátum drengjum í aftursætinu sem olli því að þessi létta kella hafi arkað inn í verslun þar í bæ og keypt eitt stykki af ferða dvd...og ferðinni var bjargað...enda var það planið að allir fengju e-ð fyrir sinn snúð. Hefði aldrei trúað því fyrirfram að mig langar þangað aftur...eitt stykki sundlaug, veitingastaður og svo eintóm náttúra...og jú einn berrassaður karl í næsta húsi sem vissi ekki af okkur en prinsarnir ætluðu af límingunum yfir því hvað við hlógum yfir þessu...minn maður sagði hann vera með heila rottu í klofinu og að ég ætti að skammast mín yfir að glápa svona yfir þessu...hann með kíkirinn í andlitinu.
Ömmusonur byrjaður í skóla...og eftir fyrsta daginn sagðis hann ekkert skilja í þessum kennurum ..vilja bara tala um reglur og reglur og meiri reglur. Ég fékk ekkert að læra! Vá...ertu þá ekki strax búinn að læra margar reglur spurði vongóð...nei bara eina....ég kann að fara í röð og ég var búinn að læra það í leikskólanum en amma ég var bara skammaður einu sinni Frábært sagði ég...og tók þennan kút í fangið og hrósaði honum yfir hvað allt hefði nú gengið vel og ömmumömmu hjartað var vongott um framhaldið. Prinsinn minn ekki eins ánægður...en koma tímar og koma ráð.
Fíkillinn enn á sínum stað...aðeins farið að rofa til í þokunni í höfðinu á henni þó símalínur gangi nú enn á milli HRAUNSINS og hennar. Á en í nógu basli með sig og sína erfileika að litlir drengir...eiga nú ekki mikið pláss enn þá. Allt getur gerst og kerfið vill að ég fái hjálp til að undirbúa mig undir það að litli karlinn hér fari til múttu sinnar.... hann sem fer ekki lengra en í næsta hús þá hringir hann til að vita hvað ég sé að gera.....
Indlandsfarinn komin heim og viti menn ég er farin að sofa betur. Hún er tiltölulega í góðu lagi...og byrjar í skólanum á morgun... Tvibbinn hennar enn á sjónum og alltaf jafn gaman að gera að aflanum sem hann kemur með heim..hvað þá bjóða til veislu!
Minn elsku ektakarl fer í myndatöku núna í vikunni...ég sem hélt í það að það væri ekki fyrr en í næstu viku...eins og það skipti máli. Hér er ekki mikið sofið á nóttinni og hann í mikilli afneitun um hvað veldur því. Ég krossa svo oft putta að það er sjálfkrafa að það gerist ef ég heyri um veikindi eða erfileika. Ég er viðbúin öllu...tilbúin í allt og er búin að fara yfir ansi margt í huganum eða draumum um hvað getur gerst og hvernig ég höndla það. Létt að segja svona en viðbragsstig líkamanns og huga vinnur verkið svolítið fyrir fram. Prinsarnir okkar...já við eigum reyndar fimm prinsa sem allir finna fyrir ástandinu...mismikið þó en á meðan ég hef orkuna og löngunina þá er ég kletturinn hér í stóru fjölskyldunni okkar en eins gott líka að vinir séu til sem eru til staðar....fyrir mig og mitt röfl.
... Þar til næst
28.7.2009 | 13:27
Ekki grípa alltaf boltann
Fótbolti, sól, vinir og nóg af góðum bókum til að kíkja í...fullkomin blanda á þessu heimili. Danski afleggjarinn okkar hjóna hefur verið í heimsókn og tíminn hefur liðið svo hratt og yndislegt að sjá hana með pabba sínum og ræða hennar hugleiðingar um veikindin hans og lífið almennt. Nóg af þúfum hjá mörgum til að stika yfir en eins og ég er alltaf að reyna að koma til skila ...er að áhyggjur hjálpa ekkert til..nema til þess að láta okkur líða illa og því er það val mitt að láta þær ekki komast að....það er mitt verkefni þessa dagana. Viss afneitun í gangi!
Áhyggjurnar hjá mér eru settar fram í huganum sem fallegt vatn....sem ég svíf yfir og öðru hvoru tylli ég mér niður og ýri ypp vatnið og mynda öldur. Í mörg ár talaði ég um kommóðu...með fullt af skúffum sem ég setti erfið mál í og opnaði svo eftir þörfum.
Kellingin mín í Indlandi er ekki mikið að segja múttu sinni en hún er komin til Nepal, er að ferðast þar en lendi í einhverju óhappi/slysi sem hún vill ekkert tala um....og ég setti þau mál bara á bólakaf í þetta fallega vatn mitt. Hún er ekki væntanleg heim fyrr en eftir mánuð ..samt var ég svo að vona að hún kæmi fyrr en hún vill ferðast og skoða meira. Við dettum stundum á sama tíma inn á msn og í dag var hún komin með mikinn hita og mikla og sára verki í kviðinn. Þessi baráttukerling lofaði að vera komin á spítalann í fyrramálið en þarna er hún ein á ferð og á e-ð erfitt með á ákveða forgangsröðina og engan til að ræða við!
Minn ektakarl farin að vinna allan daginn en vinnan hefur alltaf verið í fyrsta sæti hjá honum og þó að þrekið sé ekki alveg komið þá lætur hann sig hafa það. Við fáum þreyttan en ánægðan karl heim sem sér rúmið sitt í hillingum..nema þegar liðið hans er að spila þá er farið snemma á völlinn til að kjafta..og fá fréttir. Myndataka eftir rúman mánuð og yfirleitt fer vist ferli í gang á heimilinu sem byrjar hjá mínum ektakarli..þungur og lokaður sem hægt og rólega svífur inn á okkur öll...og þá er eitt að gera og vera viðbúin og setja aðgerðarplan í gang sem byggist á því að fá sem flesta í heimsókn eða fara í heimsókn og kjafta þennan þunga niður.
Prinsarnir fórum með mér í afturhvarf til fortíðar ferðalag....þar sem hlátursvöðvarnir voru fundnir upp á nýtt en vinkona til margra..margra ára kom með okkur og og við saman rifjuðum upp öll skátalögin og leiki strákunum til mikilla gleði. Dekruðum við á okkur á allan hátt og fundum þennan frábæra veitingastað á suðurlendinu sem við sóttum stíft í.
Ég stunda enn skoppið/ leikfimi, en afleggjararnir kalla það ræktina, á fullu og núna er það nýtt takmark eftir að einn lítill og sætur sagði við mig..amma þetta er allt laust á þér ..um leið og hann ýtti fingri inn í þrýstinn en slakan vöðva á upphandlegg. Vinkonurnar kalla þetta ömmuvöðva þar sem þær þykjast ekki vera með þetta enda ekki ömmur en þá..aha!
..þar til næst
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.7.2009 | 16:40
svífandi...glaður
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.6.2009 | 10:58
Sofið með maurum
Allt gott í hófi mundu margir telja en heimasætan þarf að sjálfsögðu að taka allan pakkann. Dustar fötin sína á morgnana í leit að kakkalökkum en maurar gera sér það að góða að fá að lúlla hjá henni á nóttinni.
Hennar starf þarna úti er að taka viðtöl við foreldra sem eiga börn sem þau selja í vinnu í verksmiðjur yfir daginn en hafa áhuga á að bjóða þeim e-ð annað tækifæri ef það gefst. Hún tekur líka viðtöl við börnin og það kemur skýrt fram hvað þau eru að hugsa, átta ára gömul og það er fjölskyldan sem þau eru með í fyrirrúmi og jú þau vilja fara í skóla en þá er það oft hugsunin að læra e-ð sem kemur fjölskyldunni að notum. 300 rúbíur fær fjölskyldan i verksmiðjunum en þessi samtök bjóða 100 rúbíur ef þau leyfa barninu að fara í skóla. Ef einhver hefur áhuga að styðja þetta starf þá endilega hafið samband við heimasætuna mína katarn87@gmail.com og hún svarar ykkur af miklum áhuga. Á blogginu hennar kemur þetta svo skýrt fram í viðtölum hennar við börnin.
Herbergið hennar er vinsælt um þessar mundir hér heima, sjómaðurinn hefur skotið sér þar inn og svo er fíkílinn minn að bíða eftir plássi á Kotinu og hefur verið hér með annan fótinn. Við hin bíðum spennt eftir næstu dögum en prinsinn er að fara á Eyjamót og við ætlum öll að fylgja honum og styðja..
Allir semsagt að standa sig vel....í öllu sem þau eru að gera..ég dusta af mér rykið inn á milli...fór með elsta afleggjaranum mínum í bæinn í gær, á Jómfrúnna þar sem við ákváðum formlega að stefna á Eurovison að ári. Osló og Alexander verða sem sagt fyrir léttu áfalli þegar við mætum á staðinn. Hjúkkan hún systa mín ætlar að koma með okkur þannig að við ættum að vera í góðum málum.
..þar til næst
Vinir og fjölskylda | Breytt 25.6.2009 kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)